„Bakraddirnar eru stórskotalið íslenskra bakraddasöngvara; Hera Björk, Guðrún Gunnars, Pétur Örn og Grétar Örvarsson,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sérstakur ráðunautur Eurobandsins fyrir Evróvisjón-keppnina í Belgrad í Maí.
Mikil læti hafa verið í kringum Eurobandið frá því að 24 stundir sögðu frá því að dönsurunum fjórum í atriðinu hefði verið sparkað fyrir fjóra bakraddasöngvara. Dansararnir voru ósáttir og sögðu mikilli vinnu fórnað. En Páll Óskar er hvergi banginn og segir atriðið annað og betra nú þegar bakraddirnar hljóma undir söng Friðriks Ómars og Regínu Óskar. Hann undirstrikar þó að lagið hvíli að mestu á þeirra herðum. „Friðrik Ómar og Regína Ósk eru í forgrunni. Lagið er í réttum höndum – í þeirra börkum.“