Bandaríska söngkonan Beyonce giftist kærastanum sínum, honum Jay-Z, við athöfn í þakíbúðinni hans í Tribeca-hverfinu í New York á föstudaginn, að því er tímaritið People greindi frá í gær.
Einungis nánustu vinum og ættingjum var boðið, vegna þess að þannig vildi Jay hafa það, var haft eftir vini brúðhjónanna.
Beyonce er 26 ára, og Jay-Z, sem hét upphaflega Shawn Carter, er 38. Hann hefur verið gríðarvinsæll rappari síðan 1996, og í síðustu viku bárust af því fregnir að hann væri um það bil að skrifa undir 150 milljóna dollara samning, sem verður þá einn stærsti samningur tónlistarsögunnar.