Bandaríski tónlistarmaðurinn Bob Dylan fékk í kvöld sérstök verðlaun úthlutunarnefndar Pulitzerverðlaunanna, sem venjulega eru veitt fyrir blaðamennsku. Dylan fékk verðlaunin fyrir þau miklu áhrif, sem hann hefur haft á dægurtónlist og bandaríska menningu með einstaklega kröftugum ljóðrænum verkum sínum.
Um er að ræða heiðursverðlaun, sem ekki eru veitt oft, en hafa m.a. verið veitt Theodor Seuss Geisel, sem kallaði sig Dr Seuss, og rithöfundinum Ray Bradbury.
Jasstónlistarmennirnir Thelonious Monk og John Coltrane voru heiðraðir með þessum hætti árið 2006 og 2007 en þeir voru þá báðir látnir.
Bob Dylan heldur tónleika í Egilshöll í lok maí.