Endurkomur hjá fornfrægum hljómsveitum vekja ávallt einhver viðbrögð. Sumar hljómsveitir hafa snúið aftur eftir að hafa hætt og náð að halda velli. Norska tríóið í A-ha snéri aftur árið 2000 og hefur gert ágæta hluti síðan og ekki er langt síðan strákarnir í Take That tóku höndum saman á ný, svo einhver dæmi séu tekin. Nú er bara spurning hvort endurkoma New Kids on the Block heppnist vel.
Hljómsveitin, sem var gríðarlega vinsæl í fáein ár á níunda áratugnum, mun leika fyrir áhorfendum í fyrsta sinn í 14 ár þann 17. maí í New Jersey. Um er að ræða stóran tónlistarviðburð þar sem einnig koma fram Miley Cyrus, the Jonas Brothers, OneRepublic, Simple Plan og síðasti sigurvegari American Idol Jordin Sparks.