Áhugaljósmyndarinn Jónas Björgvinsson er í miklu uppáhaldi sjálfrar bítlaekkjunnar Yoko Ono. Hefur hún keypt þrjár myndir af Jónasi, fyrir ótilgreinda upphæð, allar af Friðarsúlunni í Viðey.
„Þetta var nú hálfgerð tilviljun allt saman. Ég var að koma af sýningu í Laugarásbíó einhverntímann í september og sá að verið var að prufukeyra Friðarsúluna. Ég stökk heim til að ná í græjurnar og náði nokkrum fínum myndum sem ég setti síðan inn á flickr myndavefinn,“ segir Jónas sem grunaði ekki að myndirnar ættu eftir að snerta taugar Yoko Ono.
„Nokkru seinna fékk ég símtal frá SagaFilm sem kom að opnunarathöfninni í Viðey. Þeir komu mér í samband við Maguffin fyrirtækið, sem sér um friðarverkefnið hennar Yoko. Þeir höfðu milligöngu um kaupin á myndunum og ég hafði því aldrei beint samband við hana, nema eftir á, í rafrænum bréfaskrifum, þar sem hún þakkaði fyrir sig og annað slíkt,“ segir Jónas sem vill ekki gefa upp kaupverðið á myndunum. „Það eru engar risaupphæðir neitt. Þær eru alltént undir sex stafa tölu.“
Á netinu flickr.com/jonasbj71