Íbúar borgarinnar Liverpool, þar sem bresku Bítlarnir eru bornir og barnfæddir, eru sumir ekkert sérstaklega ánægðir með yfirlýsingar Ringo Starr að undanförnu, sem hefur m.a. sagt að hann sakni einskis í borginni.
Liverpool er menningarborg Evrópu þetta árið og eðlilega er Bítlunum sýndur sérstakur heiður. M.a. tók það hóp garðyrkjumanna um 18 mánuði að forma trjástyttur af þeim Ringo Starr, Paul McCartney, John Lennon og George Harrison og verkið, sem ítalski listamaðurinn Franco Covill hannaði, var afhjúpað fyrir mánuði.
Í gærmorgun þegar íbúar Liverpool vöknuðu var höfuðið af Ringo horfið en aðrir Bítlar eru í fullum blóma. Ekki er ljóst hvað það tekur nýtt höfuð langan tíma að vaxa á styttuna.