Litlar líkur eru á því, að Omar bin Laden, 26 ára gamall sonur hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Ladens, fái vegabréfsáritun til Bretlands en Omar kvæntist á síðasta ári 52 ára gamalli enskri konu. Hafa þau hjón sagt, að þau vonist til að geta flust til Englands og sest þar að.
Konan, sem heitir Jane Felixe-Browne en nefnir sig nú Zaina al Sabah bin Laden, sagði í sjónvarpsviðtali í París í gær, að hún reiknaði með því að umsókn um vegabréfsáritun til Bretlands verði hafnað. Hún sagðist hins vegar ætla að fara með málið til æðstu yfirvalda og Mannréttindadómstóls Evrópu ef svo bæri undir.
Zaina, sem er frá Moulton í Cheshire, sagði að þau hjónin þráðu ekkert heitar en að komast til Englands. Þau kynntust í Egyptalandi árið 2006 þar sem Zaina var að leita sér lækninga við MS sjúkdómnum. Þau giftu sig fljótlega en áður hafði Zaina verið gift fimm sinnum og á þrjú börn og sex barnabörn.
Þau Zaina og Omar skildu í september í fyrra, að þeirra sögn vegna þess að þau óttuðust um líf sitt, en giftust síðan aftur.