Greint hefur verið frá því að Dame Anita Roddick, stofnandi stórfyrirtækisins The Body Shop, hafi staðið við það fyrirheit sitt að gefa allar eigur sínar fyrir andlát sitt. Roddick lést í kjölfar heilablóðfalls í september á síðasta ári 64 ára gömul. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Riddick lýsti því yfir árið 2005 að henni þætti fáránlegt að vera auðug við andlátið og að hún ætlaði sér að verja síðustu tuttugu árum ævi sinnar í að gefa auðæfi sín sem metin voru á a.m.k. 150 milljónir sterlingspunda. Hún var þá illa haldin af lifrarbólgu en ekki talin dauðvona.
„Ég mun gefa auðæfi mín, það er staðreynd, en þó ekki strax,” sagði hún á bloggsíðu sinni í desember árið 2005. „Ég hef alltaf sagt að ég vilji ekki deyja rík.”
Fyrir andlátið mun Riddick hafa gefið sínum nánustu peningagjafir en meginhluta eigna sinna hafði hún þó lagt í Roddick sjóðinn, sem hún stofnaði. Þá mun hún hafa lagt til hliðar peninga fyrir útför sinni og erfðasköttum.
Roddick sjóðurinn leggur áherslu á að styrkja þá sem sýna frumkvæði í baráttunni gegn alnæmi og í baráttunni fyrir mannréttindum.