Björk Guðmundsdóttir hóf á föstudaginn tónleikaferðalag sitt um Bretland þar sem hún spilar á alls tíu tónleikum. Tvennir þeirra eru að baki og hafa breskir fjölmiðlamenn keppst við að hlaða á hana lofi fyrir frammistöðuna.
„Hún er stjarna í orðsins fyllstu merkingu, ófyrirsjáanleg, dularfull og dáleiddi áhorfendur gjörsamlega,“ sagði gagnrýnandi Manchester Evening News eftir tónleika Bjarkar þar á föstudagskvöldið. „Það eru fjögur ár síðan hún túraði síðast um Bretland og það var tekið á móti henni í Manchester eins og týndri dóttur.“
Björk hefur eins og kunnugt er vakið athygli á tónleikaferðalagi sínu fyrir að hvetja Grænlendinga, Færeyinga og nú síðast Tíbeta til þess að lýsa yfir sjálfstæði. Það mátti greina nokkur vonbrigði hjá gagnrýnanda This is London vegna þess að hún hvatti ekki íbúa Hammersmith-hverfisins til þess að lýsa yfir sjálfstæði og lyfta fána á tónleikunum þar í fyrrakvöld. „Lítil þjóð sem stærsta poppstjarna Íslands drottnar yfir virðist mjög freistandi hugmynd,“ sagði hann.
Hann varð þó ekki fyrir neinum vonbrigðum með tónleikana sjálfa og sagði að þó að hann hefði alltaf haft það á tilfinningunni að Björk væri ekki alveg af þessum heimi, þá hefði hún endanlega staðfest það þarna að hún væri göldrótt.
Árni Matthíasson blaðamaður Morgunblaðsins var meðal áheyrenda í Hammersmith og var ekki síður hrifinn af tónleikunum. „Það seldist upp á augabragði og mikil stemning í kringum þá. Þetta voru alveg ofboðslega vel heppnaðir tónleikar.“