Hljómborðsleikarinn Danny Federici, sem lék áratugum saman með Bruce Springsteen og hljómsveit hans The E Street Band, er látinn 58 ára að aldri. Hann lést af völdum sortuæxlis.
Andlát Federici var tilkynnt á heimasíðu Springsteen sl. fimmtudag og frestaði rokkarinn tvennum tónleikum í Flórída í kjölfarið. „Ég og Danny unnum saman í 40 ár. Hann var frábær tónlistarmaður. Mér þótti afar vænt um hann…við ólumst upp saman,“ greinir Springsteen frá.
Federici hafði verið veikur í þrjú ár og lék hann síðast með Springsteen og hljómsveit hans, The E Street Band, 20 mars sl. á tónleikum í Indianapolis þar sem þeir fluttu lagið „4th of July, Asbury Park (Sandy).“
Federici fæddist í New Jersey og byrjaði snemma að leika á harmóníku. Hann kom gjarnan fram í veislum og spilaði svo í klúbbum. Hann gekk til liðs við Springsteen undir lok 7. áratugarins þegar rokkarinn var enn óþekktur. Federici þótti koma með ferskan hljóm sem síðar varð órjúfanlegur hluti af tónlist E Street hljómsveitarinnar, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.