„Þetta er verkefni fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sem vilja styrkja okkur mánaðarlega. Okkur finnst mikilvægt að tengjast þeim vel og þykir mikið til þeirra koma að vilja sinna þessari félagslegu skyldu,“ segir Bergsteinn Jónsson, starfsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Verkefnið sem um ræðir hefur tekið á sig þá mynd, að nú vill UNICEF þakka þeim fyrirtækjum sem þegar eru styrktaraðilar, en bjóða um leið nýjum að slást í leikinn.
Fyrirtækin fá að launum sérstakan listmun sem þau geta prýtt húsakynni sín með. „Peningarnir renna til menntaverkefna í Vestur-Afríku, og þess vegna létum við gera lítil pappahús sem eru táknræn fyrir uppbyggingu skóla og menntunar. Sá mikli alþýðulistaður, Þorlákur Morthens, tók okkur opnum örmum og af sinni einskæru vinnugleði málaði hann húsin hundrað. Öll eru þau merkt, og ekkert þeirra er eins.“
Fyrirtækin sem þegar styðja verkefnið fá sitt hús, en þau fjörutíu hús sem af ganga bíða nýrra styrktaraðila. Öll húsin verða sýnd í Saltfélaginu á Granda til 25.apríl.