Lengi vel var talið að konungur rokksins Elvis Presley hefði aldrei heimsótt Bretland nema í fáeinar klukkustundir þegar vél hans millilenti í Skotlandi en annað hefur komið í ljós. Leikhúsframleiðandinn Bill Kenwright sagði í útvarpsviðtali að Elvis hefði farið í skoðunarferð til London ásamt söngvaranum Tommy Steele árið 1958.
Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
Í eina skiptið sem vitað var að Elvis hafi komið til Bretlands var þegar vél hans millilenti í Prestwick í Skotlandi. Það var stutt stopp og myndir sýna að þá var hann í fylgd með kærustu sinni Priscillu, sem seinna varð eiginkona hans.