Íslandsvinurinn Yoko Ono, ekkja Johns Lennon, og synir hennar Sean Ono og Julian, og útgáfufyrirtækið EMI Blackwood Music Inc, hafa lögsótt framleiðendur heimildarmyndarinnar Expelled: No Intelligence Allowed, fyrir að nota lag Lennons, „Imagine“, í leyfisleysi í myndinni.
Lennon hljóðritaði lagið árið 1971 og má til gamans geta að tímaritið Rolling Stone setti það í þriðja sæti yfir bestu lög allra tíma, í úttekt sinni fyrir fjórum árum.
Sækjendur málsins vilja að bann verði sett á notkun lagsins í myndinni og fara auk þess fram á skaðabætur. Í heimildarmyndinni er fjallað um eldfimt efni, kennslu í grunnskólum í því að Guð hafi skapað allt líf á jörðinni í stað þess að það hafi þróast eins og kenning Charles Darwins lýsir.