Tenórsöngvarinn Garðar Thór Cortes fór til Parísar á föstudaginn í
myndatöku fyrir ítalska Vogue tískutímaritið sem verður 40 ára í ár. Blaðið hefur einnig beðið Garðar Thór að syngja á afmælishátíð blaðsins sem haldin verður í Mílanó í júní.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Einari Bárðarsyni, umboðsmanni Garðars verður öllum þekktustu nöfnum tísku, tónlistar, kvikmynda og stjórnmála boðið til veislunnar.
Myndatakan í París var fyrir fjögurra síðna viðtal við Garðar Thór sem á að birtast í júníblaði tímaritsins.
Ljósmyndarinn sem myndaði Garðar í París í gær er hinn svissneski Michel Comte, en mynd eftir hann seldist fyrir tæplega 100.000 dollara á uppboði fyrir skemmstu. Myndin er nektarmynd af Cörlu Bruni eiginkonu Frakklands forseta. Michel er einnig þekktur fyrir að eiga sína eigin svítu á Ritz hótelinu í París.
Á fimmtudagskvöldið var Garðar Thór gestur við frumsýningu Paramount
Pictures á myndinni The Ironman í Odeon kvikmyndahúsinu við Leicester
Square.
Garðar hélt til Parísar á föstudagsmorgun er núna kominn aftur til London að klára plötuna sína sem kemur út í London og á Íslandi á þann 23. júní næst komandi.
Í vikunni voru blaðamenn frá Sunday Times og The Daily Telegraph gestir í hljóðverinu þar sem upptökurnar fara fram en Garðar er tilnefndur til sígildu tónlistarverðlaunanna fyrir plötu ársins.
Verðlaunaafhendingin mun fara fram í Royal Albert Hall fimmtudaginn 8. maí næst komandi og er mikill áhugi hjá breskum fjölmiðlum fyrir Garðari og nýju plötunni hans.