Textinn við lagið Give Peace A Change, sem John Lennon handskrifaði á blað, verður seldur á uppboði hjá Christie's í Lundúnum í júlí. Búist er við að textinn seljist á allt að 300 þúsund pund, jafnvirði um 44 milljóna króna.
Lennon samdi textann þegar hann og Yoko Ono, kona hans, dvöldu í rúminu í átta daga í herbergi 1742 í Queen Elizabeth hótelinu í Montréal í Kanada árið 1969. Hann gaf textablaðið síðan 16 ára gamalli stúlku, Gail Renard, sem tókst að smjúga fram hjá öryggisvörðum inn í herbergi Lennons og taka við hann viðtal fyrir skólablað.
Svo vel fór á með Renard og Lennonhjónunum, að stúlkan dvaldi með þeim í herberginu í viku. Renard er nú að selja textablaðið ásamt myndum frá þessum tíma.
Lagið Give Peace A Chance var tekið upp í hótelherberginu og meðal gesta var skáldið Allen Ginsburg, LSD-prédikarinn Timothy Leary og félagar í Hare Krishna musteri í Kanada. Lagið, sem Plastic Ono Band flutti, komst í 14. sæti á bandaríska vinsældalistanum og var fyrsta sólóplatan, sem meðlimur í Bítlunum gaf út en hljómsveitin hætti ári síðar.
Lagið varð síðar tákn baráttumanna fyrir friði, einkum þeirra sem vildu binda enda á stríðið í Víetnam. Því lauk 1975.
John Lennon var myrtur í New York árið 1980.