„Þetta verður örugglega alveg rosalega skemmtilegt,“ segir Bergþór Morthens, gítarleikari hljómsveitarinnar Egó sem kemur fram á tónleikum á NASA hinn 17. maí næstkomandi.
Bergþór lék með Egóinu á starfsárum sveitarinnar frá 1981 til 1984, en fyrir utan afmælistónleika Bubba í Höllinni hinn 06.06.06 hefur Bergþór ekki spilað með sveitinni síðan þá. Aðspurður segist hann þó alltaf spila á gítarinn öðru hvoru.
„Þetta kemur svona í skorpum. Þegar eitthvað stendur til dustar maður rykið af græjunum og setur í gang,“ segir Bergþór sem hefur mest spilað einn fyrir sjálfan sig að undanförnu.