Nick Cannon, sem leikur elskhuga söngkonunnar Mariah Carey í nýjasta myndbandi hennar, hefur fengið stærra hlutverk í raunverulegu lífi söngkonunnar ef marka má fregnir slúðurblaða og vefmiðla.
Samkvæmt fregnum eiga skötuhjúin,Carey, 38 ára, og Cannon, 27 ára, að hafa gengið í hjónaband á miðvikudag. Hins vegar svöruðu talsmenn þeirra ekki skilaboðum AP-fréttastofunnar í dag þegar leitað var eftir svörum um hvort þetta væri rétt.
En ef rétt er þá hefur aðdragandinn verið stuttur, að minnsta kosti opinberlega. Í síðustu viku fréttist fyrst af samdrætti þeirra og síðasta laugardag mætti söngkonan með risastóran demantsbaug á fingri á Tribeca kvikmyndahátíðina í New York. Var hún viðstödd frumsýningu myndarinnar Tennessee, þar sem hún lék þjónustustúlku. Stóð Cannon þétt við hlið hennar á hátíðinni samkvæmt frétt AP.
Vefurinn Latina.com var sá fyrsti til að greina frá brúðkaupinu en samkvæmt honum fór vígslan fram á heimili Carey á Bahamaeyjum. Á föstudag greindi New York Post og E! frá brúðkaupinu. Samkvæmt E! á Cannon að hafa hringt í fjölskyldu sína til þess að tilkynna um brúðkaupið.
Cannon hefur gefið út hljómdisk en er betur þekktur fyrir hlutverk í kvikmyndinni Drumline.
Ef satt reynist þá er hjónabandið það fyrsta hjá Cannon en annað hjá Carey en hún var gift Tommy Mottola um árabil.