„Það er ekkert eftir í vöruhúsinu okkar. Fólk þarf að bíða dágóða stund ef það vill næla sér í svona,“ sagði starfsmaður leikfangaverslunarinnar Toys 'R' Us í viðtali við The New York Times varðandi þann gríðarlega áhuga sem viðskiptavinir sýndu leikfangaköllum sem byggðir eru á kvikmyndinni The Dark Knight. Leikföngin eru uppseld í nær öllum leikfangaverslunum New York-borgar og margar búðir eru á biðlista eftir að fá þessi vinsælu leikföng á lager.
Biðröð af æstum aðdáendum myndaðist fyrir framan verslun Toys 'R' Us á Times Square í New York þegar leikföngin fóru í sölu og þurftu margir frá að hverfa án þess að fá hinn vinsæla Jóker-leikfangakall.
Leikföngin eru seld á tæpar 800 krónur í leikfangaverslunum í Bandaríkjunum en nú þegar er farið að braska með leikföngin á uppboðsvefnum eBay og þar er verðið nokkru hærra, um 2000 krónur.