Sveitasöngvarinn Eddy Arnold er látinn 89 ára að aldri. Hans helsta framlag í tónlistargeiranum var útgáfa hans af laginu “Make the World Go Away” sem varð mjög vinsælt víða um heim.
Arnold ólst upp í fátækt í bænum Henderson í Tennessee. Á unga aldri kom hann sér á framfæri sem söngvari og vann sig upp úr fátæktinni. Umsjónarmaður Arnolds á fimmta áratugnum var enginn annar en Col. Tom Parker og ekki leið á löngu þar til lög Arnolds náðu vinsældum.
Arnold sameinaði sveitatónlist og popptónlist á sjöunda áratugnum. Með þeirri áherslubreytingu náði hann til enn fleiri hlustenda. Mörgum sveitasöngvurum var illa við þá breytingu en mjúk barítónsrödd hans gerði það að verkum að honum var líkt við Bing Crosby.
Uppselt var á fjölda tónleika sem hann hélt í New York og Las Vegas á þessum árum.