Ólafur Ragnar Grímsson segir heimsókn Friðriks krónprins Danmerkur og Mary konu hans hingað til lands hafa verið afar ánægjulega, óvenjuskemmtilega og frjálslega. Þau yfirgáfu landið í gær.
„Hér var ný kynslóð á ferð. Ungt fólk sem var mjög opið og áhugsamt. Þau voru í senn fulltrúar gamallar hefðar og mikillar sögu, en líka forvitin og frjálslynd,“ sagði forsetinn.
Ólafur kvaðst ánægður með hvernig heimsókn Friðriks og Mary hingað til lands hefði sýnt þau tengsl sem eru milli Dana og Íslendinga á fjölmörgum sviðum.
„Þetta eru ekki bara tengsl sem eru söguleg, heldur mjög lifandi, virk og skapandi. Svo var gaman fyrir okkur Dorrit og aðra Íslendinga að fylgjast með hvernig þau upplifðu og skynjuðu íslenska náttúru, og voru hrifin jafnvel þó veðrið hafi ekki alltaf leikið við okkur.“
Forsetinn segist hafa lagt sérstaka áherslu á það á undanförnum árum að rækta sambandið við næstu kynslóðir norrænu þjóðhöfðingjanna: „Ég tel að það skipti Ísland miklu að þegar næsta kynslóð tekur við, á næstu árum og áratugum, þá séu þau búin að kynnast Íslandi vel og þyki vænt um það,“ segir Ólafur. „Með þessari heimsókn hafa ríkisarfarnir í Noregi, Svíþjóð og Danmörku komið til landsins og fengið að kynnast landi og þjóð.“
Krónprinshjónin heimsóttu m.a. Íslenska erfðagreiningu í gær og síðan danska sendiráðið þar sem myndin er tekin. Þau fóru í gær eftir heimsóknina sem hófst á mánudag.