Tuttugu og tvær myndir koma til greina sem handhafar Gullpálmans í Cannes en hátíðin hefst í 61. sinn í næstu viku. Opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar nefnist Blindness og er verk leikstjórans Fernandos Meielles (The Constant Gardener) en að vanda verður að finna myndir vel þekktra leikstjóra í bland við minna þekkta.
Á meðal þeirra nafnkunnugri má nefna Clint Eastwood en mynd hans, Changeling, fjallar um barnsrán og hugarvíl móðurinnar sem grunar að réttu barni hafi ekki verið skilað til hennar eftir fundinn. Meðal leikenda í myndinni eru Angelina Jolie og John Malkovich.
Maðurinn sem gerði mynd sem gerðist að hluta til inni í höfðinu á John Malkovich, Charlie Kaufman, mætir einnig til leiks með mynd sýna Synecdoche, New York. Þar fer Philip Seymour Hoffman fyrir hópi leikara í hutverki leikhúsrekanda sem lendir ósjaldan í vandræðum þegar hann reynir að byggja eftirlíkingu af Manhattan í leikhúsinu sínu.
Heimamaðurinn Laurent Cantet sýnir myndina Entre Les Murs. Myndin er byggð á sögu, handriti og ævi François Bégaudeau sem lýsir reynslu sinni sem kennari í litlum skóla í París. Annar landi þeirra, Arnaud Desplechin, verður aðeins úr takt við sólskinið í Cannes og sýnir mynd sína Un Conte De Noël (Jólasaga). Þriðji Frakkinn í hópnum heitir Philippe Garrel og hann leikstýrir syni sínum Louis og fleirum í myndinni La Frontiére De L'Aube.
Ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Nuri Bilge Ceylan kemur frá Tyrklandi með mynd sína um apana þrjá (UC Maymun) og Ari Folman frá Ísrael með teiknimyndina Watz With Bashir.
Ítalinn Matteo Garrone sýnir okkur svo starfsemi nútímaglæpafjölskyldu á Ítalíu í mynd sinni Gomorra.
Bræðurnir frá Belgíu, Jean-Pierre og Luc Dardenne, sýna sína nýjustu mynd, Le Silence De Lorna (Þögn Lornu). Þeir bræður geta þegar státað af einum Gullpálma en hann fengu þeir árið 2005 fyrir mynd sína L'Enfant. Enn meiri góðkunningi hátíðarinnar telst þó Atom Egoyan sem nú er tilnefndur til Gullpálmans í fimmta sinn án þess að hafa hlotið verðlaunin eftirsóttu. Hver veit nema mynd hans Adoration snúi gæfunni honum í hag. Og talandi um góðkunningja hátíðarinnar. Wim Wendes hefur átta sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna eftirsóttu og einu sinni hlotið, fyrir Paris, Texas. Í ár sýnir hann sína nýjustu mynd, Palermo Shooting.