Rithöfundurinn Doris Lessing segir að engin blessun hafi fylgt því að fá Nóbelsverðlaunin í bókmenntum á síðasta ári því hún hafi ekki getað skrifað staf síðan hún hlaut verðlaunin.
Í viðtali við BBC segir hún að fjölmiðlar veiti henni engan frið og því sé nánast ómögulegt að hún nái nokkurn tíma að klára skáldsögu hér eftir. Segir hún í viðtalinu sem verður birt á rás 4 á morgun að allur tíminn fari í að veita viðtöl og sitja fyrir hjá ljósmyndurum.
Lessing segist ekki hafa neina orku í að skrifa lengur og því bendi hún yngra fólki á að það eigi ekki að ímynda sér að sú orka sem það hafi í dag endist til eilífðarnóns. Því eigi fólk að nýta orkuna á meðan hún sé til staðar.
Lessing tók bókmenntaverðlaunum fyrr á þessu ári þar sem hún gat ekki veitt þeim viðtöku í desember í Svíþjóð sökum heilsubrests, orðin 88 ára gömul. Hún tók þess í stað við þeim í Wallace Collection-safninu í Lundúnum. Sendiherra Svía í Lundúnum, Staffan Carlsson, studdi Lessing upp á svið og sagði að nú hlyti hún þau verðlaun sem hún hefði lengi átt skilið að fá. Leikararnir Alan Rickman og Juliet Stevenson lásu upp úr nýjasta verki Lessing, Alfred and Emily, sem á að koma út í ár. Lessing er ellefta konan sem hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels.
Upprunalegt nafn Doris Lessing er Doris May Tayler. Hún er fædd í Persíu (nú Íran) árið 1919. Foreldrar hennar voru breskir og frá Persíu flutti fjölskyldan til Ródesíu (í dag Zimbabwe) sem á þeim tíma var bresk nýlenda.
Fyrsta bókin hennar, The Grass is Singing (Grasið syngur) kom út árið 1950. Hana byggir hún á barnæsku sinni í Ródesíu og fjallar um hvíta nýlenduherra og ranglæti gagnvart heimafólki. Bókin olli miklu fjaðrafoki á meðal ráðamanna bæði í Suður-Ródesíu og Suður-Afríku. Það var síðan skáldsagan The Golden Notebook, sem kom út árið 1962, sem kom henni á kortið í bókmenntaheiminum. Í rökstuðningi sænsku akademíunnar var bent á að verkið hefði verið brautryðjendaverk og fyllt heila kynslóð femínískra rithöfunda andagift. Í bókinni hafnaði Lessing meðal annars þeirri hugmynd að konur fórnuðu alfarið lífi sínu fyrir börn og hjónabönd.