Kvikmyndin Iron Man er vinsælasta kvikmyndin vestanhafs þriðju vikuna í röð. Alls skilaði Iron Man, með Robert Downey Jr í aðalhlutverki, 51,2 milljónum dala í kassann. Frá því myndin var frumsýnd hefur hún skilað 177,8 milljónum dala. Önnur vinsælasta myndin vestanhafs um helgina er What Happens in Vegas með þeim Ashton Kutcher og Cameron Diaz í aðalhlutverki.
Áhorfendur eru óútreiknanlegir oft á tíðum. Flestir kvikmyndaáhugamenn höfðu gert ráð fyrir því að margir myndu sjá nýjustu mynd Wachowski bræðranna, Andy og Larry, um leið og hún birtist í kvikmyndahúsum. En sú varð aldeilis ekki raunin nú um helgina þar sem Speed Racer, með Emile Hirsch í aðalhlutverki skilaði einungis 18,6 milljónum dala í kassann sem er ekki mikið ef litið er til gríðarlegra vinsælda Matrix myndanna sem er verk þeirra bræðra.