Sannsöguleg mynd um lífsreynslu Norður-írska fangans Bobby Sands var frumsýnd í dag á Cannes kvikmyndahátíðinni. Talið er að myndin muni valda miklum deilum í Bretlandi og hafa sumir þegar sagt myndina gera hryðjuverkamann að píslarvætti.
Sands, sem var meðlimur í írska lýðveldishernum lést eftir að hafa svelt sig í 66 daga þegar hann sat í fangelsi. Sands fór í hungurverkfall ásamt nokkrum öðrum meðlimum lýðveldishersins og vildu þeir fá því framgengt að vera skilgreindir sem pólitískir fangar.
Myndin ber heitið Hunger og er leikstýrt af Steve McQueen. Leikstjórinn segist ekki endilega vera sammála Sands. „Myndin fjallar um ákvarðanatökur hjá fólki, slæmar eða góðar og afleiðingarnar af þeim,“ sagði hann.