Donna Summer átti margan diskósmellinn á 8. áratugnum og hefur jafnan verið nefndi drottning diskósins. Hún er þó hvergi af baki dottin og gaf nýverið frá sér sína fyrstu sólóplötu í 17 ár, Crayons.
Eitt laganna á plötunni heitir „The Queen is Back“, eða Drottningin snýr aftur og gerir Summer þar góðlátlegt grín að aðalstigninni. Summer verður sextug um næstu áramót en þeir sem ekki þekkja drottninguna ættu að kynna sér smelli á borð við „Hot Stuff“ og „She Works Hard for the Money“. Summer hefur selt yfir 130 milljón plötur og fengið fimm Grammy-verðlaun.