Fjórða myndin um fornleifafræðinginn Indiana Jones verður frumsýnd í Cannes í Frakklandi nú síðdegis. Mikil eftirvænting er víða um heim eftir myndinni enda eru 19 ár frá því sú þriðja var frumsýnd. Gagnrýni um myndina birtist í nokkrum evrópskum blöðum í dag og var almennt jákvæð.
Harrison Ford, sem orðinn er 65 ára, leikur aðalhlutverkið eins og í fyrri myndunum og Steven Spielberg leikstýrir. Einnig leika Cate Blanchett, Karel Allen og Simon LaBoeuf í myndinni.
„Myndin er ágætlega gerð og það er vel þess virði að borga aðgangseyrinn og njóta hennar," segir Alain Spira, gagnrýnandi Paris-Match í dag. „Manni líður eins og í uppáhalds hringekjunni sinni, sömu persónurnar og sömu brandararnir. Ford er enn fullur af orku," bætir hann við.
David Gritten, gagnrýnandi breska blaðsins Sunday Telegraph, var ekki alveg eins hrifinn. „Myndin er ekki beint slæm en það brakar óneitanlega í henni. Hann er ekki jafn keikur í frakkanum og það smellur ekki eins skemmtilega í svipunni - og Harrison Ford lítur út fyrir að vera 65 ára," segir hann.
Myndin gerist árið 1957, 19 árum eftir þeirri þriðju. Jones kemur í háskólann sinn til að kenna og kemst að því að grunur leikur á að hann sé hallur undir kommúnista og það á að reka hann.
Hann hittir síðan ungan ofurhuga, Mutt, leikinn af LaBoeuf, sem biður hann um að hjálpa sér að leita að kristalshauskúpu Akator og bjarga móður sinni. Sovéskur útsendari, leikinn af Blanchett, fylgir þeim eftir og hópurinn lendir í ýumsum ævintýrum.