Eurobandið mætti í morgunþátt serbneska ríkissjónvarpsins RTS ásamt krónprinsessu landsins, Katherine og stóðu þau Friðrik Ómar og Regína Ósk sig með stakri prýði. Þau eru boðin í móttöku bæði hjá krónprinsinum Alexanders II og Katherine og síðar í kvöld hjá borgarstjóranum í Belgrad.
Alexander er sonur síðasta konungs Júgóslavíu og því krónprins verði landinu breytt í konungdæmi á ný en það er nú lýðræði.
Þau Friðrik Ómar og Regína Ósk láta vel af móttökunum sem þau hafa fengið í Belgrad en þykir nóg um það frelsi sem reykingamenn njóta hér í borg. „Það er reykt ofan í mann hvar sem maður kemur, ég hugsa að ég reyki margar sígarettur á dag bara óbeint," sagði Regína Ósk í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.