Danski söngvarinn Simon Mathew lét sig ekki vanta í evróvisjónsamkvæmi Eurobandsins í Belgrad í gær. Hann lýsti yfir eindregnum stuðningi með Eurobandinu og sagðist vonast til að Danir gæfu Íslendingum 12 stig í ár.
Mathew er 24 ára prestssonur sem hefur stundað tónlist af fullum krafti frá því að hann var sex ára. „ Eurobandið á án efa góða möguleika í keppninni þar sem þau hafa svo sterka útgeislun á sviðinu fyrir utan að vera ákaflega indælar manneskjur," sagði Mathew í spjalli við Fréttavef Morgunblaðsins.