Ingó og Veðurguðirnir tróna á toppi lagalistans eins og undanfarnar vikur með lagið „Bahama“ og Eddie Vedder situr líka kirfilega fastur í öðru sætinu frá því í síðustu viku. Coldplay hefur hins vegar hækkað sig um nokkur sæti og er nú komin í þriðja sætið í annarri vikunni síðan lagið „Violet Hill“ komst inn á lista.
„Hjartað þitt“ er fyrsta lagið sem Dalvíkingurinn Eyþór Ingi sendir frá sér eftir að hann sló í gegn í Bandinu hans Bubba. Það kemur beint inn í sjöunda sætið, enda eignaðist hann stóran hóp stuðningsmanna meðan á þáttaröðinni stóð og þeir hafa eflaust beðið spenntir eftir nýju lagi.
Breska poppstirnið Natasha Bedingfield stekkur beint inn í 13. sætið með lagið „Pocket full of Sun-shine“ af samnefndri plötu. Dómar um plötuna hafa verið frekar jákvæðir og hún hefur átt nokkrum vinsældum að fagna í Bandaríkjunum. Það hefur líka vakið athygli á Bedingfield að Barrack Obama hefur notað lag eftir hana á kosningafundum sínum.
Kósíkvöld þeirra Baggalúta nær síðan að smeygja sér inn í 17. sætið í fyrstu tilraun og líklegt að það eigi eftir að fikra sig ofar.