Bölvun hefur legið yfir Íslendingum frá því að forkeppninni var bætt fyrir framan úrslit Eurovision. Örlygur Smári, höfundur lagsins, segist hafa trú á því að það takist í ár að komast í úrslitaslaginn en biður þjóðina um að halda stillingu.
„Ég held að málið sé að hafa fæturna á jörðinni og standa þétt við bakið á Eurobandinu, hvernig sem fer,“ sagði Örlygur Smári í gær skömmu eftir að fyrra rennsli dagsins lauk. „Ég held að það geti verið hættulegt fyrir okkur að þær þjóðir sem eru orðaðar við sigur í keppninni í ár koma strax á eftir okkur. Kannski getur það hjálpað, en svo gæti það gerst að við föllum í skuggann. Þetta hefur samt hvatt okkur til dáða.“
Örlygur segir allt umfang keppninnar hafa breyst heilmikið frá því að hann fór fyrst með Einari Ágústi og Telmu, árið 2000. Fjölmiðlaáhugi hafi aukist til muna við inngöngu Austur-Evrópuþjóðanna sem þau Friðrik og Regína hafa nýtt sér til fullnustu.
„Mér skilst að lagið okkar sé eitt af þeim fáu sem eru í spilun hér á útvarpstöðvum í Serbíu. Þau eru svo búin að fara í viðtal í serbneska sjónvarpinu og á útvarpsstöðvum víðs vegar um Evrópu.“
„Þetta eru bara æfingar, þannig að við höfum nú ekkert verið að gefa okkur 100% í þetta,“ segir Friðrik Ómar. „Við erum að spara þetta extra sem við notum í lokin, þegar maður spennir upp alla vöðvana. Þetta snýst allt um þessar þrjár mínútur sem við erum í beinni. Maður getur átt góðar eða slæmar æfingar en þær skipta engu. Við gætum vaknað með brjálaða flensu og draumurinn er úti.“
Eins og frægt er orðið naut Eurobandið aðstoðar dáleiðara til þess útiloka ótta úr pípum sínum fyrir úrslitakeppni Laugardagslaganna. Í kvöld verða engar slíkar ráðstafanir gerðar. Þau leyfa sér ekki einu sinni að skella sér í nudd. „Ég fæ nú bara hausverk á slíku,“ segir Friðrik að lokum.
Ísland stígur fyrst á svið í Belgrad í kvöld, skömmu eftir klukkan sjö, þegar seinni umferð í forkeppni Eurovision hefst.