Samkvæmt kvikmyndaritinu Variety hafa leikararnir Viggo Mortensen, Andy Serkis og Ian McKellen allir skrifað undir bráðabirgðasamninga þess efnis að þeir muni leika í myndunum tveimur sem byggðar verða á bókinni The Hobbit eftir rithöfundinn J.R.R. Tolkien. Allir leikararnir munu fara aftur í hlutverk sín úr Hringadróttinssögu-þríleiknum.
„Ég er alveg fylgjandi því að notast áfram við leikarana sem sköpuðu þessar persónur, svo lengi sem þeir geta og vilja það,“ sagði leikstjórinn Guillermo del Toro en hann hefur verið fenginn til að leikstýra myndunum tveimur.
Fyrri myndin mun fylgja eftir söguþræði hinnar upprunalegu Hobbit-bókar en seinni myndin mun fjalla um þá atburði sem gerðust frá því að sögu Hobbitans lauk og þangað til Hringadróttinssaga tók við.
Handritsvinna við myndirnar er skammt á veg komin en reiknað er með því að handritið verði að mestu skrifað af þeim stöllum Philippu Boyens og Fran Walsh en þær gerðu einmitt handritið fyrir Hringadróttinssögu-þríleikinn, ásamt Peter Jackson.
„Við munum öll vera viðloðandi handritið á einhvern hátt, en það verður gengið frá þessu öllu í næstu viku,“ sagði Guillermo del Toro í viðtali við Variety.