Bandaríski hnefaleikakappinn Mike Tyson og argentínska fótboltahetjan Diego Maradona stálu senunni á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi, en sitt hvor heimildamyndin hefur verið gerð um líf þeirra félaga. Sjónvarp mbl fylgdist með kynningarfundum um myndirnar.
Tyson virtist óvenju auðmjúkur og sagði að athyglin sem honum hefði verið sýnd á hátíðinni í Cannes hefði komið sér á óvart. Hann sagðist varla hafa haft kjark til að sjá myndina um sig og hefði orðið hálf vandræðalegur því honum hefði fundist hann vera afar berskjaldaður á hvíta tjaldinu.
Maradona lét hinn þekkta leikstjóra Emir Kusturica, sem bæði skrifar handritið og leikstýrir heimildamyndinni um fótboltakappann, um að tala á blaðamannafundinum. Kusturica sagðist fátt hafa vitað um Maradona þegar hann byrjaði á verkefninu, en hann hefði komist að því þegar á leið að lífsviljinn væri svo sterkur að honum mætti líkja við nokkurs konar guð.