„Þau stóðu sig alveg æðislega vel, enda er alltaf erfitt að vera fyrstur á svið og þurfa að opna dagskrána,“ segir Sigríður Beinteinsdóttir um frammistöðu Friðriks Ómars og Regínu Óskar í fyrrakvöld. Það kom henni þó á óvart að lagið kæmist áfram. „Það er samt ekki vegna þess að lagið hafi ekki verið nógu gott eða vegna þess að þau hafi ekki verið nógu góð. Ég hef alltaf haldið því fram að þetta sé varla hægt því við erum svo lítið land, og þessar austantjaldsþjóðir eru svo sterkar. En það er búið að brjóta þvert á allt sem ég hélt, þannig að þetta er alveg hægt. Þetta er bara spurning um að fara með gott lag og góða flytjendur.“
Sigríður telur hins vegar að róðurinn verði nokkru þyngri í kvöld en í undankeppninni.
„Það er mikið af fínum lögum í keppninni, en miðað við allt og allt, og báðar þessar forkeppnir, myndi ég giska á að við lentum í 12. eða 13. sæti.“
En hvaða lag heldur Sigríður að muni sigra í keppninni?
„Úkraína er með mjög sterkt lag, og þeir gætu unnið. Svíarnir eru líka mjög sterkir, auk þess sem mér finnst lagið frá Noregi mjög gott. En þetta getur farið í allar áttir.“