Eurovision: Er okkar tími kominn?

Belgrad nálgast nú suðupunktinn í Evróvisjóngleðinni, hápunkturinn er í kvöld og allir rembast við að halda taugunum í skefjum. Íslensku keppendurnir eru búnir að fá margar æfingar á stóra sviðinu og eru vel æfð. Friðrik Ómar segist hugsa eins og sigurvegari og nota sigurgleðina sem hann fann á sviðinu heima er þau unnu undankeppnina. Hann mun að sögn miðla sigurgeislum til kjósenda í Evrópu.

Því er ekki að neita að allt í einu er það bara stór og mjög svo raunverulegur möguleiki að Ísland vinni þessa keppni í fyrsta sinn síðan við brutum okkur leið inn í þennan afkima dægurtónlistar. Ég vara ykkur við, This is my Eurovision gæti allt eins ómað í Beograd Arena í kvöld með sterkum íslenskum hreim.

Ég held að Eurobandið hafi alls ekki átt von á því að komast upp úr forkeppninni. Þá hefðu þau nefnilega verið betur undirbúin á blaðamannafundinum sem fylgdi í kjölfar undankeppninnar á fimmtudaginn. „Ef Evróvisjón væri lítið barn myndi Reykjavík annast það af varfærni,“ sagði Friðrik Ómar á stórum blaðamannafundi sem sjónvarpað var beint víða um Evrópu eftir að ljóst var orðið að við myndum komast áfram í keppninni. Þetta var fallegt svar við ruglingslegri spurningu sem kom frá stressuðum serbneskum blaðamanni.

En þó að svarið hjá Friðriki Ómari hafi verið vel meint og hannað til að kalla fram mjúkar tilfinningar hjá hinni hrjúfu og kaldlyndu blaðamannastétt þá finnst mér myndlíkingin ekki alveg ganga upp. Reykjavík myndi til dæmis ekki útvega evróvisjón-króganum leikskólapláss fyrr en hann væri orðinn stálpaður og krílið fengi ekki nema takmarkað tannlæknaeftirlit miðað við önnur vestræn lönd og svo ættu foreldrar hans erfitt með að komast ferðar sinnar með hann í vagni þar sem gangstéttirnar eru oftar en ekki nýttar sem bílastæði. Svo er Evróvisjón frekar miðaldra, 53 ára og hylur gráu hárin með glimmeri.

Þegar við vinnum í kvöld mun Eurobandið án efa vera búið að hugsa upp betri myndlíkingar til að bauna á evrópsku pressuna. Það er enginn skjálfti í RÚV-mönnum eins og maður skyldi ætla nú þegar líkurnar á að þeir þurfi að punga duglega út fyrir svona Evróvisjónsvallveislu að ári hafa aukist til muna. Þórhallur Gunnarsson segist vera búinn að leigja flugvélaskýli í Keflavík undir Evróvisjón 2009 og gistirými fyrir alla hersinguna, ekkert mál, herinn fer og glamúr-hersingin tekur við.

Sama hvernig fer þá verður óraunverulegt að vera hér í Belgrad í kvöld og fylgjast með, það hafa drifið að nokkur hundruð skandínavískir blaðamenn til viðbótar síðan á fimmtudaginn og nokkuð ljóst að menn vonast til að nýi evróvisjónverðlaunagripurinn, glerhljóðneminn, lendi á norðlægum slóðum í ár.

Dagur Gunnarsson (dagur@mbl.is)

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir