„Nei, það eru ekki allir búnir að vera með öllum, en það hafa þó einhverjir meðlimir byrjað saman,“ segir Hulda Birna Blöndal, meðlimur í Sólóklúbbnum, félagssamtökum einhleypra á Íslandi 30 ára og eldri, sem halda ball fyrir einhleypa á skemmtistaðnum Primo í Keflavík á laugardaginn.
„Ég man ekki til þess og ekki heldur þeir sem ég hef ráðfært mig við. Einhvern tímann verður allt fyrst. Það er auðvitað spurning hvenær viðkomandi er einhleypur og hvenær ekki, en við miðum við sambúð, það er auðveldast þannig.“
Samtökin voru stofnuð formlega 17. febrúar 2007 upp úr félagsskap einstæðra mæðra.
Hlutverk klúbbsins er, að sögn Huldu Birnu, ekki endilega að finna hverjum og einum félagsmanni lífsförunaut, heldur að hafa ofan af fyrir þeim með alls kyns félagsstarfsemi. „Við hittumst á hverjum sunnudegi á Kaffi Katalínu í Kópavogi frá 14 til 16. Þá förum við einnig í fjallgöngur, sundferðir, bíóferðir, leikhúsferðir, pöbbarölt, höldum grillveislur og allt hvað eina,“ segir Hulda Birna og býður blaðamanni inngöngu þar sem sárlega vantar fleiri karlmenn. „Kynjahlutfallið er helst til of ójafnt, þar sem mun fleiri konur eru í klúbbnum.“ (Blaðamaður þurfti engar frekari fortölur og skráði sig samstundis).