Davíð Beckham gaf Viktoríu konu sinni víngarð í afmælisgjöf. Er nú allt til reiðu fyrir Viktoríu, sem varð 34 ára fyrir skömmu, að hefja átöppun eigin víns.
Davíð mun hafa greitt að minnsta kosti eina milljón punda fyrir vínekruna í Kaliforníu, og breska blaðið The Sun hefur eftir heimildamanni að Viktoría hafi orðið yfir sig hrifin af þessari gjöf.
Víngarðurinn er í Napadalnum, en þangað er um klukkustundar flug frá heimili þeirra hjóna í Los Angeles.
Fregnir herma að Davíð hafi verið búinn að kanna lengi hvaða vínbúgarðar myndu henta Viktoríu. Hann afhenti henni síðan gjöfina með því að færa henni vínflösku með miða með nafninu hennar á þegar þau voru á ferð í nágrenninu í síðasta mánuði.
Hjónin hafa ráðið mannskap til að reka vínbúgarðinn, en ekki er talið að þau ætli að selja vínið í verslunum heldur hafa það aðeins fyrir fjölskyldu og vini.
Meðal annarra frægra sem eiga vínbúgarða eru Sting, Gerard Depardieu og Francis Ford Coppola, en hann varð einna fyrstur fræga fólksins til að fjárfesta í Napadalnum.