Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi fyrir blaðamönnum í flugvélinni á leið frá Svíþjóð til Íslands í gærmorgun, að hápunkturinn á Svíþjóðarvöl hennar hefði verið að hitta hljómsveitina Kiss, sem þar var við tónleikahald.
„Ég var í sjöunda himni," sagði Rice, sem sjálf spilar listavel á píanó.
Hún hitti Gene Simmons og aðra í Kiss á Sheratonhótelinu í Stokkhólmi á fimmtudagskvöld. „Mér þykir gaman að allskonar tónlist og þess vegna var mjög gaman að hitta Kiss og Gene Simmonds," sagði Rice. Aðalerindi hennar til Stokkhólms var hins vegar að sitja ráðstefnu um málefni Íraks.
Bandarískir embættismenn sögðu að hljómsveitin hefði haft frumkvæði að fundinum. Aðstoðarmenn Rice sýndu blaðamönnum myndir af Rice og Kiss, sem höfðu skilið andlitsmálninguna og leðurfötin eftir uppi í herbergi. Rice var hins vegar formlega klædd enda kom hún beint úr kvöldverðarboði hjá Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía.
Simmons og aðrir í Kiss, þeir Paul Stanley, Eric Singer og Tommy Thayer, gáfu Rice áritaða mynd og aðstoðarmönnum hennar boli með mynd af hljómsveitinni.
Rice sagðist aldrei hafa séð Kiss á sviði en hún hefði farið á ferna rokktónleika um ævina, fyrst þegar hún var 10 ára og sá Paul Revere and The Raiders í Alabama. Þá hefur hún farið á tónleika með Smokey Robinson, Earth Wind and Fire og U2.