Bandaríski leikarinn og vísindakirkjumaðurinn Tom Cruise hefur hleypt af stokkunum vefsíðu sem hann helgar eigin persónu og er slóðin http://www.TomCruise.com
Umfjöllun um Cruise í fjölmiðlum þykir hafa verið allneikvæð á seinustu árum, einkum þó í tengslum við trúarbrögð hans og sérstaka hegðun í viðtali í spjallþætti Opruh Winfrey.
Það kemur því ekki á óvart að Cruise opni vefsíðu og verndi ímynd sína og kynni verk sín um leið.
Meðal þess sem finna má á síðunni eru skilaboð frá Cruise og stutt æviágrip auk myndskeiða úr þeim kvikmyndum sem hann hefur leikið í á 27 ára ferli sínum í kvikmyndum, sem hófst með myndinni Risky Business. „Ég bjó til þessa síðu í þakkarskyni við ykkur, fyrir ykkur, fyrir að deila vegferðinni með mér og bjóða ykkur að kanna með mér það sem framtíðin ber í skauti sér,“ segir Cruise á síðunni.
Næsta kvikmynd Cruise er Valkyrie og verður hún frumsýnd 13. febrúar á næsta ári. Hann leikur þó lítið hlutverk í grínmynd Bens Stiller Tropic Thunder, sem verður frumsýnd á Íslandi 22. ágúst, ef marka má kvikmyndavefinn IMDb.