Íslenski bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson tekur þátt í opna meistaramótinu í brasilísku jiu jitsu á Hawaii á morgun en mótið fer fram í Honolulu.
Brasilískt jiu jitsu er vinsæl íþróttagrein á Hawaii og Hawaiibúinn B.J. Penn varði fyrir viku heimsmeistaratitil sinn í blönduðum bardagalistum. Hann varð jafnframt fyrsti keppandi utan Brasilíu til að hreppa heimsmeistaratitil í þessari grein.
Gunnar hefur síðustu þrjá mánuði dvalist í Hilo á Hawaii við æfingar í bardagaíþróttum og notið leiðsagnar Penns, að því er kemur fram í tilkynningu.