Mikill áhugi er á ljósmyndasýningu kvikmyndaleikarans Viggo Mortensens, sem opnuð var í dag í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Mortensen hefur einnig áritað þar bækur sem hann hefur gefið út um ljósmyndun og önnur áhugamál hans.
Ljósmyndasýningin ber yfirskriftina Skovbo og vísar í efni myndanna, tré og skóga. Mortensen stillir verði myndverkanna mjög í hóf og rennur andvirði seldra verka til Náttúruverndarsamtaka íslands.
Viggo Mortensen kemur víða við í listinni; semur ljóð, málar, tekur ljósmyndir og semur tónlist. Kunnastur er hann þó sem kvikmyndaleikari og var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna í fyrra.