101 AF 110 ljósmyndum á sýningu listamannsins Viggo Mortensen, sem opnuð var í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á laugardag, seldist á opnuninni. Mortensen ákvað að stilla verði mynda mjög í hóf og að andvirði þeirra myndi renna óskipt til Náttúruverndarsamtaka Íslands. Að sögn starfsmanna safnsins gekk mikið á þegar gestir vildu tryggja sér þau verk sem þeim leist best á. Alls seldust myndir fyrir hátt á fjórðu milljón króna.
Hátt á annað þúsund manns munu hafa mætt á opnunina í Ljósmyndasafninu og streymdi fólk uppá sjöttu hæð Grófarhússins. Í ávarpi sínu þakkaði Mortensen, sem er einkum kunnur fyrir kvikmyndaleik en sýnir reglulega bæði ljósmyndir sínar og málverk, kærlega fyrir að vera boðið að sýna í safninu. Hann kvaðst í tvígang hafa sótt það heim á fyrri ferðum sínum til landsins, hafa notið sýninganna og dáðst að starfsemi stofnunarinnar.