Síðasti fundur Hins konunglega fjelags einkenndist af trega og eftirsjá. „„Við hefðum átt að...“ var svolítið yfirskrift þessarar jarðarfarar,“ segir Eyrún Ingadóttir, fyrrverandi kammerjómfrú.
Uppsöfnuð gremja og vonbrigði voru aðalástæða þess að félagið lagði upp laupana: „Við vorum aldrei boðin í neinar konunglegar veislur. Vorum hundsuð, klökk og spæld. Svo tók steininn úr þegar þau komu hingað um daginn, Friðrik og María, og okkur var ekki boðið að hitta þau,“ segir Eyrún sem er sagnfræðingur að mennt.
En var aðalmarkmiðið með félagsskapnum að komast í konungleg kokkteilboð? „Auðvitað fannst okkur öllum að það ætti nú að bjóða okkur allavega einu sinni,“ segir Eyrún, en tekur fram að félagsmeðlimir hafi verið of dannaðir til að biðja um boðskortin. „Við vorum kurteis og biðum bara eftir að okkur yrði boðið, enda algjörlega fyrir neðan okkar virðingu að vera að sníkja boðið.“
Þegar hún nú lítur yfir farinn veg segir Eyrún að félagið hefði kannski getað gert meira, hefði kannski átt að setja upp vefsíðu eða hefja skipulega leit að bláu blóði á landinu. „Sú hugmynd kom fram að leita að bláu blóði í landsmönnum og fá einhvern konungborinn til að bjóða sig fram til forseta,“ segir Eyrún um eitt gott fræ sem aldrei varð blóm.
En ekki er öll von úti. Morgunblaðið hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að enn reynist líf í því kulnaða báli sem Hið konunglega fjelag er í dag.
Lítill en eitilharður kjarni konungssinna ku vera í mótun og hver veit hvað verður.
Því er kannski við hæfi að segja: Hið konunglega fjelag er dáið. Lengi lifi Hið konunglega félag.