Samkvæmt slúðurmiðlum beggja vegna Atlantshafsins er goðsögnin og leikarinn Paul Newman við dauðans dyr. Í síðasta mánuði var greint frá því að Newman hefði greinst með krabbamein og gengist undir skurðaðgerð til að reyna að vinna bug á sjúkdómnum. Nú berast hins vegar fregnir af því að Newman sé illa haldinn af lungnakrabbameini og berjist fyrir lífi sínu.
Newman, sem er 83 ára gamall og mikill reykingamaður, liggur á Sloan-Kettering-krabbameinsmiðstöðinni í New York þar sem færustu læknar Bandaríkjanna freista þess að bjarga lífi þessa fræga leikara.
Paul Newman á að baki langan feril í kvikmyndum en á meðal frægra mynda hans má nefna myndir á borð við The Towering Inferno, Butch Cassidy and the Sundance Kid og The Sting. Síðastliðin ár hefur Newman aðallega fengist við talsetningu en hann kom meðal annars fram í Pixar-teiknimyndinni Cars.
Matarfyrirtæki hans, Newmans Own, hefur farið mikinn í góðgerðarstarfsemi en fyrirtækið gefur allan sinn gróða til góðgerðarmála. vij