Tónlistarmaðurinn George Michael hefur litla trú á heiminum og segir allt á leið til fjandans. Michael hefur ákveðið að hætta tónleikaferðalögum þar sem hann segist ekki lengur þola það brjálæði sem fylgir því að vera frægur tónlistarmaður.
„Það verður sífellt furðulegra að vera undir smásjá almennings. Heimurinn er að verða klikkaður og ég vil ekki vera hluti af því," segir Michael.
Í gær var greint frá því að söngvarinn ætlaði að halda tvenna tónleika í Lundúnum í Earls Court í ágúst. Tónleikarnir eru nefndir The Final Two og er talað um þá sem síðustu stórtónleika hans í Bretlandi. Tónleikarnir verða þeir síðustu í tónleikaferð George Michael sem hófst í Barcelona á Spáni í september 2006. Voru þá fimmtán ár liðin frá síðustu hljómleikaför hans.
George Michael hefur átt við eiturlyfjafíkn að stríða og vonast hann til þess að hann hafi betur í baráttunni við fíknina. Í síðasta mánuði var hann dæmdur til samfélagsþjónustu og sviptur ökuréttindum í tvö ár eftir að hann játaði að hafa ekið undir áhrifum lyfja.