Jón Geir Jóhannsson er án efa með sérviturri trommuleikurum landsins. Ekki bara með sérstæðum trommuleik sínum, eins og við höfum kynnst með innkomu hans í Ampop, heldur getur hann ómögulega hugsað sér að spila á útgáfutónleikum án þess að smíða sér nýtt trommusett.
Á mánudagskvöld heldur hljómsveit hans Hraun útgáfutónleika á Rúbin í Öskjuhlíð og því hefur hann setið sveittur í æfingahúsnæði sveitarinnar að slípa og lakka.
„Þetta eru fjórðu útgáfutónleikarnir sem ég smíða fyrir,“ segir Jón Geir og hljómar spenntur fyrir nýja settinu. „Fyrst gerðist þetta fyrir tilviljun. Ég var að smíða sett á svipuðum tíma og Ampop átti að spila á útgáfutónleikum. Næstu útgáfutónleika á eftir hafði Kjartan [úr Ampop] keypt sér nýtt píanó og ég hjálpaði honum að skreyta það. Þá gat ég auðvitað ekki annað en smíðað nýtt sett því það gamla passaði engan veginn við skreytinguna. Svo fannst mér þetta svo fyndið, að mæta alltaf með nýtt sett fyrir hverja útgáfutónleika, að ég ákvað að halda þessari hefð.“
„Ef eitthvað bilaði þá þurfti ég bara að redda því. Ég bjó á Ísafirði og póstkröfuþjónusta hljóðfæraverslana var ekki beint sú ábyrgasta í heimi. En ég hef gert þetta af alvöru í átta ár núna.“