Grímuverðlaunin voru afhent sjötta sinni í fyrrakvöld, á föstudeginum 13. og því ljóst að skipuleggjendur hátíðarinnar eru ekki hjátrúarfullir. Veitt voru verðlaun í sextán flokkum sviðslista auk áhorfenda- og heiðursverðlauna.
Lítið bar á óhöppum á hátíðinni nema þá helst í byrjun hennar þegar upphafsatriði klikkaði eilítið hjá snyrtilega klæddum kynnum hátíðarinnar, leikurunum Jóhannesi Hauki Jóhannessyni og Guðjón Davíð Karlssyni, Jóa og Góa. Tókst þeim þó að komast vel frá sínu á endanum með tilheyrandi sprelli og gamanmálum sem jafnan fylgja verðlaunaafhendingum.
Einn af hápunktum kvöldsins var flutningur á allsérstöku friðarlagi þeirra félaga á fjölda tungumála sem hefði getað verið framlag til Evróvisjónsöngvakeppninnar. Fyndnasta atriðið, að mati þess sem hér skrifar, var endurgerð Jóa og Góa að dansatriði úr kvikmyndinni Dirty Dancing/ Í djörfum dansi, þar sem þeir beittu einföldum tæknibrellum.