Thorvald Brynjar Sörensen segir farir sínar ekki sléttar. Hann ætlar að ganga að eiga unnustu sína, Auði Bryndísi Hafsteinsdóttur, hinn 28. júní nk. og voru þau búin að bóka sal í Þróttaraheimilinu í Laugardal undir brúðkaupsveisluna. Þeim til mikillar skelfingar ætla Björk og Sigur Rós að halda tónleika sama dag og að öllum líkindum á sama tíma og veislan verður, nokkur hundruð metrum frá veislusalnum. Það verður því lítill friður í veislunni fyrir tónleikahaldinu.
Thorvald segir borðhaldið byrja um kl. 20 og á hann von á því að tónleikarnir muni standa hvað hæst á meðan á borðhaldi stendur. „Það verður ekki hægt að tala inni, ekki hægt að halda ræðu eða neitt,“ segir Thorvald. Hann viti af svipuðu tilfelli, þegar afmælisveisla var haldin í salnum um leið og KB banki var með tónleika á Laugardalsvelli. Þá hafi gestir ekki getað talað saman fyrir tónlistinni.
Hann segir alltof seint núna að finna annan sal en ákveðin kona hjá Reykjavíkurborg segist ætla að kanna málið. „Ég er búinn að fá tilboð hjá þessum,“ segir Thorvald um Þróttarasalinn og hann ætli ekki að fara að borga neitt umfram það tilboð. Ekki bætir heldur úr skák að Thorvald er lítill aðdáandi Bjarkar og Sigur Rósar en honum finnst Björk þó „skömminni skárri“. „Þetta eru nú ekki skemmtilegustu tónlistarmenn sem ég hlusta á,“ segir Thorvald og hlær. Hann muni því ekki fagna tónlistinni í veislunni, þótt ókeypis sé og segir öruggt að veislugestir séu sama sinnis.
„Þetta er náttúrulega stærsta stund okkar, þessi dagur, og nú veit maður ekki hvernig maður á að snúa sér í þessu,“ segir Thorvald og er áhyggjufullur.