Græna skrímslið, The Incredible Hulk, var eftirsótt af bandarískum og kanadískum kvikmyndahúsagestum um helgina. Myndin var sú vinsælasta í kvikmyndahúsum vestanhafs um helgina en hún skilaði 54,5 milljónum Bandaríkjadala í kassann. Önnur vinsælasta myndin var Kung Fu Panda sem halaði inn 34,3 milljónum dala.
Í þriðja sæti var kvikmyndin The Happening með 30,5 milljónir dala og You Don't Mess With The Zohan var í því fjórða með 16,4 milljónir dala.
Í kvikmyndinni The Incredible Hulk býr eðlisfræðingurinn Robert Bruce Banner til sprengju sem springur óvart þannig að hann verður fyrir gammageislun (rafsegulgeislar sem eiga upptök í atómkjörnum sumra geislavirkra efna). Við það breytist Banner í risavaxið, grænt skrímsli í mannsmynd.
Árið 1977 framleiddi sjónvarpsstöðin CBS tvær sjónvarpsmyndir um græna risann og fór leikarinn Bill Bixby með hlutverk Banner og vaxtarræktartröllið Lou Ferrigno með hlutverk Hulk. Sjónvarpsþættir fylgdu í kjölfarið og voru sýndir frá árinu 1978 til 1982.
Fyrsta Hollywood-kvikmyndin um Hulk var gerð fyrir fimm árum og leikstýrði Ang Lee þeirri mynd. Lee átti þá að baki myndir á borð við Crouching Tiger, Hidden Dragon; Sense and Sensibility og Eat Drink Man Woman. Eric Bana lék Banner. Leikstjórinn að þessu sinni er Louis Leterrier ogEdward Norton leikur Banner.