Met var slegið á listaverkauppboði í Sydney í Ástralíu í gærkvöldi er óhlutbundið málverk eftir Picasso var selt fyrir 6,9 milljónir ástralska dollara, 538 milljónir króna. Verkið, Sylvette, var selt til ónafngreinds kaupanda af Deutscher-Menzies galleríinu. Er þetta hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir listaverk í Ástralíu.
Málverkið er frá árinu 1954 en Sylvette var nágranni spænska málarans er hann bjó í Suður-Frakklandi. Hreifst Picasso mjög af Sylvette, sem var 17 ára á þeim tíma, einkum og sér í lagi ljósu hári hennar sem hún setti yfirleitt upp í tagl. Picasso málaði 40 myndir þar sem Sylvette er fyrirmyndin.
Er þetta hæsta verð sem fengist hefur fyrir listaverk í Ástralíu en fyrra metið var frá árinu 2007 er verk eftir ástralska listamanninn Brett Whiteley var selt á 3,48 milljónir ástralskra dala, 271 milljón króna.Rodney Menzies, framkvæmdastjóri Deutscher-Menzies, keypti Picasso verkið fyrir tveimur árum síðan á 357 milljónir króna, 4,6 milljónir ástralska dali.