Pálmi Gestsson, leikari í Þjóðleikhúsinu og í Spaugstofunni, hefur ráðið sig í hafnarvörslu í Bolungarvík í sumar. Aðspurður viðurkenndi hann fúslega í samtali við Bæjarins besta að vera orðinn, eða um það bil að verða, hafnarvörður í bænum.
„Þeir vildu að ég byrjaði strax, en ég byrja líklega bara á
mánudaginn“, sagði Pálmi þegar hann var staddur í húsi sínu í
Bolungarvík. Eins og alþjóð veit er Pálmi Víkari í húð og hár þó hann
hafi búið sunnan heiða meirihluta ævi sinnar. „Þetta er ágætis afsökun
fyrir því að dvelja hérna langdvölum. Mér líður vel hérna á Hjara,
óðalinu mínu í Bolungarvík.“
Pálmi segist litla reynslu hafa af
hafnarvörslu þó hann hafi verið á sjó og þ.a.l. umgengis höfnina í
Bolungarvík talsvert. „Bróðir minn er yfirhafnarvörður og hann kemst
ekkert í frí, þannig að ég verð að sjá aumur á honum. Ég veit ekki
alveg hvað ég verð lengi, en held ég þurfi að dekka tvö sumarfrí. Við
verðum að sjá hvernig þetta fer og hvort ég geti ekki lært að vigta, ég
vona að ég hafi einhverja hæfileika í það.“